Þjálfun starfsfólks er öflug vörn gegn netglæpum
Valit ráðgjöf býður fyrirtækjum og stofnunum upp á svikapóstaprófanir
Íslenska ráðgjafar- og hugbúnaðarfyrirtækið Valit ráðgöf sérhæfir sig í netöryggi og vörnum gegn netárásum sem verða sífellt algengari í formi svikapósta, vefveiða og annarrar bragðvísi (e. social engineering) sem útsmognir netglæpamenn færa sér í nyt.
„Það er afar mikilvægt að sinna mannlega þættinum í að verjast netárásum því bestu varnir í heimi skipta litlu máli ef starfsmenn og aðrir notendur tölvukerfa eru ekki þjálfaðir í að þekkja svikapósta og vita hvernig á að varast þá,“ segir Sverrir Davíðsson ráðgjafi hjá Valit.
Valit er partner hjá Knowbe4 sem er einn stærsti vettvangur í heimi á sviði öryggisvitundar með yfir 35.000 viðskiptavini um allan heim. Knowbe4 býður m.a. upp svikapóstaprófanir og þjálfun starfsfólks í þeim tilgangi að auka öryggisvitund og hjálpa því að þekkja og forðast netárásir sem geta valdið miklum usla og fjárhagslegu tjóni hjá fyrirtækjum og stofnunum.
Má sem dæmi nefna að glæpamönnum tókst nýverið að svíkja 12 milljónir króna af norska ríkisútvarpinu (NRK) með því að brjótast inn í tölvupóstsamskipti RÚV og NRK sem eru í samstarfi um framleiðslu sjónvarpsþáttanna Ráðherrann. Óprúttnir aðilar náðu að stöðva póst frá RÚV sem innihélt reikning vegna framleiðslunnar, gerðu nákvæma eftirlíkingu og sendu svikapóst frá fölsku „tvífaraléni“ þannig að greiðslan var lögð inn á glæpamennina.
Samkvæmt frétt NRK má rekja svikin til þess að starfsmaður var plataður til að skrá sig inn á óöruggt vefsvæði og þar með var hakkarinn inni. Báðar stofnanirnar nota tveggja þátta auðkenningu, því er um þaulskipulagðan glæp að ræða sem kærður var til lögreglu í Noregi.
„Svikapóstaprófun fer þannig fram að fyrirtæki og stofnanir með Knowbe4 áskrift hjá okkur, senda eigin svikapósta á starfsfólkið og geta þá séð hverjir falla fyrir þeim póstum. Þegar niðurstaða liggur fyrir fá þeir notendur sem féllu á prófinu sent stutt kennslumyndband um hvernig þeir geti varist sambærilegum svikapóstum í framtíðini. Þannig geta stjórnendur séð hvar hætta liggur og hvaða starfsfólk þarf á nánari þjálfun að halda,“ segir Sverrir Davíðsson.
Þess má geta að RÚV er meðal þeirra fjölmörgu aðila sem hafa gengið frá samningi við Valit um þessa þjónustu.
Deila pistli


